11 desember 2008

Haustönnin 2008 og nýtt ár 2009!


Á meðan færslu stendur er í spilun:
Hey you - Pink Floyd
Three Wishes - The Pierces
Who is he - Burhan G
Gleðilegt nýtt ár 2009! Vonandi færir það nýja með sér betri tíma eftir slæman endi á því gamla!
Já síðasta önn er búin að vera heldur betur upptekin!
Ég var að læra alla daga eins og galin manneskja og kláraði síðan þessi 7 próf mín! Náði þeim síðan öllum með 7,8 í meðaleinkunn, sem er bara ágætt! Allavega get ég sagt að það kom mér á óvart að fá 8 í stærðfræði 303. Vona bara að sá næsti eigi eftir að ganga jafn vel. Næsta önn verður líka alveg crazy því að ég fer væntanlega í 7-8 áfanga. Allavega ef ég verð tekin inn í fjarnámið aftur, það eru alveg rosalega margir að fara í skóla aftur útaf kreppunni. Þannig að ég reyni bara að koma með pistla inná milli.

Allt gengur bara rosalega vel hjá Erni. Hann er núna í janúarkúrs og fer síðan bara að byrja á mastersverkefninu sínu í febrúar. Hann og Einir eru saman í því og ef allt gengur vel þá munu þeir klára og útskrifast sem verkfræðingar í ágúst/september :)
Það verður alveg nóg af útskriftum og veislum þetta árið semsagt. Örn útskrifast, ég vonandi líka (í annað skiptið), Lovísa og Svana klára stúdentinn og Þórir fermist!
Jólin og áramótin hafa síðan verið frábær bara! Við Örn höfum reyndar verið soldið á þeytingi fram og til baka en allt hefur gengið vel. Örn fór síðan til Danmerkur aftur núna 6 jan og ég fer þann 20 jan. Ágætt að fá gott frí áður en næsta turn byrjar. Næ vonandi að læra aðeins hraðar þá önnina. En allavega, þá vorum við Örn heima hjá mér fyrir austan um jólin og svo heima hjá honum um áramótin. Við fórum líka í nokkur jólaboð og allt bara rosalega gaman.

(ein aum mynd af okkur svona þangað til ég hleð inn af kortinu mínu)

Síðan var það sem beið mín eftir áramótin, en það var endajaxlataka þann 2 jan. Það gekk nú allt vel fyrir sig og ég fór heim tveimur tönnum fátækari. Núna er þetta samt byrjað að gróa nokkuð vel og bara litlar holur eftir. Ég er líka byrjuð að hreyfa mig aftur eins og ég get á meðan ég er í fríi. Síðan verður maður bara að vera harður við sjálfan sig úti!

Annars er það að Kristján Ari elskan átti 22 ára afmæli núna 10 janúar. Elskulegar afmæliskveðjur, knúsar og kossar! :* Síðan er það Gauti og Linda mín sem eiga afmæli næst, og ég fæ að óska þeim til hamingju áður en ég skríð af landinu.

Jæja, þá er ég orðin tóm í bili, eða allavega of þreytt til að skrifa meira. Ég ætla að reyna að vera duglegri við að skrifa á næstunni og henda inn myndum btw! Það leiðinlega er að ég nota tölvuna bara ekkert alltof mikið því að hún sjóðhitnar á mér, er yfirfull af myndum og lærdóm og í þokkabót þá brotnaði hin skjáfestingin svo að skjárinn helst ekki uppi á nokkurn hátt! Frábært alveg :)

Bless í bili frá Íslandi og Danmörku!

18 september 2008

"3 vika"


Til hamingju með afmælið mamma! :)
Elska þig dúllan mín

Nú er 2 vikan mín búin í fjarnáminu og allt gengur bara mun betur en ég bjóst við. Er með alveg 7 skilaverkefni í hverri viku og er ca. einn dag í hverju fagi. En þetta er bara gaman og skemmtilegt að vera í svona mörgum og fjölbreyttum fögum.
Síðustu helgi fórum við Örn, Tumi og Arndís hjólandi niður í bæ og þegar við komum aftur heim þá höfðum við hjólað heilan 41 kílómeter! En það var allavega bara gaman og við fengum líka fínasta veður.
Núna er síðan bara að byrja ný og busy helgi svo að ég blogga sennilega aftur eftir hana :)

01 september 2008

Danmörk - Sumarið 2008 liðið

Sumarið já - Það var alveg einstaklega fljótt að líða! En ef maður byrjar á vorinu þá get ég sagt frá því að það var einnig einstaklega ánægjulegt.

Mamma, pabbi og Bjarki litli bróðir minn komu í heimsókn í apríl og við gerðum ýmislegt saman, eins og t.d. að fara í Legoland og keyra um Billund sem er mun minni en ég hélt. Við sýndum þeim síðan Kaupmannahöfn og bæinn okkar Gladsaxe. Það má svo sjá betur á myndasíðunni minni hvað við brölluðum saman :)


Á eftir þeim komu svo Lovísa og Guðmundur kærastinn hennar í maí. Ég og María skelltum okkur með þeim í dýragarðinn í Kaupmannahöfn og tókum alveg heilan helling af myndum. Þau voru síðan líka mjög dugleg að fara og skoða sig um sjálf og fóru t.d. í Kristjaníu.


Á milli þessarra heimsókna skrapp ég heim til Íslands til að vinna og var þar í ca. 3 og hálfa viku. Ég var semsagt að byrja að vinna á Sólheimum og vann á bæði Grænu Könnunni sem er kaffihús staðarins og svo Brekkukoti sem er gistiheimilið þar. Hélt svo áfram að vera þar í allt sumar og það var bara rosalega gaman og ekki skemmdi fyrir að ég var að vinna með algjörum elskum :) Ég var hjá foreldrum mínum fyrir austan í sumar og það var æðislegt að flytja aftur heim þó það væri ekki nema tímabundið. Hefði þó viljað hafa kannski aðeins meiri tíma aflögu með fjölskyldunni. Ég var bara alltaf annaðhvort í vinnunni, að læra undir fjarnámið eða í bænum að hitta Örn. Missti líka af því að komast í útileguna sem mig langaði í!
Það er kannski réttast líka að segja frá því að ég komst áfram í gegnum heimaverkefnið mitt og í inntökupróf fyrir arkitektinn. Inntökuprófið stóð svo yfir í tvo heila daga og maður þurfti að gera heilmikið verkefni og um 190 manns í stofunni að gera það sama. Ég komst samt ekki áfram í gegnum það en reyni svo sannarlega aftur í vor.


En svo að nútímanum.
Við Örn vorum að detta inn í Danmörku á föstudaginn var og það er bara alveg æðislegt að vera komin aftur heim! Fáum gott veður enn sem komið er og erum að hjóla útum allt. Það er líka heldur betur búið að bætast við íslendingar hérna á litla kollegíið okkar! Núna erum við í 6 íbúðum. En við misstum þó því miður Maríu mína til íslands því að hún var að fara í gullsmíðina þar í vetur. María mín þú verður samt að vera dugleg að tala við mig þar sem ég er aaalein :)

Við erum síðan búin að hitta Auði og Eirík um helgina og Guðmundur frændi hans Arnar var hjá þeim í heimsókn áður en hann fór síðan aftur til Ítalíu. Við erum að spá í að skella okkur saman á Kanó eða Kajak á Bagsværd sø núna í vikunni jafnvel ef það verður gott veður.

Örn byrjaði svo bara í skólanum í dag og líkar vel enn sem komið er og fjarnámið mitt frá VMA byrjar svo næstkomandi fimmtudag á fullu. Gott að nýta tímann í bloggfærslur og brauðbakstur þangað til :)

Svo að lokum ætla ég að taka það fram að hann Bjarki dúllan mín verður 10 ára á morgun þann 2. september. Til hamingju með afmælið elskan mín! :*

17 apríl 2008

Legoland

Við fórum í Legoland með foreldrum og litla bróður Evu.....
Ég er bara að prófa að setja videoið hérna inn. Það er annars von á nýrri bloggfærslu.....


31 mars 2008

Páskar - bíltúr - bílasýning!


Jæja þá er komið að nýrri færslu þar sem það er alltof mikið að gerast hjá okkur þessa dagana :)

Í fyrsta lagi þá voru páskar núna um daginn og við Örn ákváðum bara að hafa það notalegt og borða íslenskt Nóa páskaegg sem Ásdís sendi með stelpunum til okkar. Það var alveg frábært því að einu páskaeggin hérna í danmörku eru þvílíkt þunn og með hreinlega engu innaní. Á föstudeginum langa langaði okkur líka að elda eitthvað gott og keyptum skinku í kvöldmatinn, brúnuðum kartöflur og höfðum meðlæti og rosalega kósý.


Á sunnudeginum var okkur síðan boðið í svakalega flott lambalæri til Auðar og Eiríks. Þau buðu okkur síðan að fá lánaðan bílinn þeirra á mánudeginum og við ákváðum bara að þyggja það fyrst að við vorum í fríi og höfðum lítið annað að gera. Við fórum í bíltúr eitthvað norður og sáum til Svíþjóðar í svona kannski 5 mínútur því að það kom bara þessi rosalega þykka snjókoma og við neyddumst bara til að snúa við. En það var samt mjög gaman að geta keyrt um svona einu sinni og skoðað meira af Danmörku. Sáum líka rosa flotta gamla myllu og tókum nokkrar myndir sem koma inná myndasíðuna mína.


Jæja síðan ákváðum við að fara á bílasýningu þann 29 mars í Bella Center. Þar voru alveg hellingur af flottum bílum og farartækjum og maður gat meira að segja borgað frá 350 til 4000 danskra króna til að fá að sitja í misflottum og góðum sportbílum með kappakstursökumanni. Það var alveg góð röð í suma bílana og ökumennirnir keyrðu alveg rosalega á sumum stöðunum. En allavega þá sáum við nokkra ótrúlega flotta bíla og sem kosta óheyrilega mikið og tókum myndir.





Um kvöldið á laugardeginum var okkur síðan boðið í party í sameiginlega herberginu í tilefni af 22 ára afmæli Maríu. Það var bara mjög gaman og fengum við sykursjokk eftir þvílíka limaköku, bleika afmælisköku, jarðaber og bollu. :)


Síðan er það að núna um helgina þá fórum við í grillmat til Auðar og Eiríks og það er nú bara Í fyrsta skipti síðan í sumar sem við fáum grillaðan mat :) Það var alveg frábært! En síðan þegar við ætluðum að fara að hjóla heim þá var sprungið í fyrsta skipti á dekkinu mínu, alveg típískt. Þannig að við þurftum að taka afturdekkið af og fengum bílinn lánaðan hjá þeim til að komast heim. Gerðum svo við dekkið og komum aftur daginn eftir og hjóluðum heim :)


Það er síðan byrjað að hlýna hérna loksins og það á vonandi eftir að batna næstu daga!
Við erum líka byrjuð að gera vöfflur á fullu :D




Mamma, pabbi og Bjarki eru síðan að koma núna næsta föstudag í heimsókn loksins :D Við ætlum að kíkja öll saman í Legoland og gista þar. Ætlum líka að skoða okkur eitthvað um og fara í Tivoli og allt ýmislegt. Blogga meira um það þegar nær dregur.


En þetta er allt í bili, og nógu löng færsla til að lesa :) Kem með fleiri orð og myndir í næstu/þarnæstu viku vonandi. Hej Hej!

20 mars 2008

Update!

Jæja góðir hálsar. Vegna mikillar eftirspurnar þá höfum við ákveðið að henda inn bloggi.

Það sem helst er frá að segja er að Svana og Jóhanna komu í heimsókn.

Þær höfðu það mjög gott hérna í fríinu en þær spiluðu mikið XBOX og síðan höfðum við keypt kassa af kóki í gleri sem þær kunnu vel að meta.
Ég reyndar bauð þeim líka Harboe Cola(svipað og Bónus Cola en samt betra) en það var ekki alveg að slá í gegn hjá þeim.

Þær höfðu nóg að gera hér í DK enda fóru þær í Field's, Lyngby Storcenter og á strikið og síðan skruppum við eitt kvöldið niðrí bæ.


Síðan bauð Eva þeim með sér í skólann sinn einn morguninn og fengu þær að kynnast því hvernig er að vera ljósmyndamódel. Þær stóðu sig með prýði og heppnuðust margar myndir vel.
Eva er núna að læra hvernig maður framkallar filmur úr gömlum myndavélum og var það mjög forvitnilegt fyrir mig(örn) að sjá hvernig það er gert.

Svana bauð okkur síðan út að borða eitt kvöldið og fórum við á Hard Rock Cafe, sem er staðsett niðrí bæ, og fengum við mjög góðan mat. Takk fyrir það Svana!


Aðrar fréttir eru að ég var orðinn svo þreyttur á að það væri alltaf að springa á dekkinu hjá mér að ég fjárfesti í kevlar dekki. Sem er búið að standa sig í cirka mánuð núna. Þannig að... Bring it on glerbrot, naglar, býflugur og annað sem getur sprengt dekk.

15 febrúar 2008

Auglýsing mánaðarins!

Hehe ég bara varð að skella þessarri auglýsingu hérna inn áður en ég blogga því að ég er alveg með hreint æði fyrir henni!
Þetta er semsagt dönsk Kims auglýsing sem er nýbyrjað að sýna hérna í dönsku sjónvarpi og það er bara eitthvað ferlega heillandi við taktinn í laginu :) Plús líka bara myndbandið sjálft.
Myndbandið er þó nokkuð lengra en það sem er í sjónvarpinu.
Það er það fyrsta á YouTube listanum hérna fyrir ofan.

Enjoy!

27 janúar 2008

Danmörk

Jæja....við horfðum á úrslitaleikinn í EM á sunnudaginn og héldum með Danmörku að sjálfsögðu, og viti menn, Danmörk vinnur þetta bara! Í fyrsta skipti eru danir búnir að vinna EM og stóðu sig bara vel. Ætli það hafi ekki verið allt á fullu niðrí bæ þar sem margir danir eru í fríi þessa vikuna :)
Til hamingju Danmörk!


En að öðrum málum...þá fórum við Örn í Harald Nyborg á laugardaginn og skoðuðum hjól fyrir mig. Við fundum síðan eitt þar sem er nákvæmlega eins og hjólið hans Arnar nema bara kvenmannshjól og enduðum svo bara á því að kaupa það :) Þannig að staðan er sú að ég er búin að fá hjól :D og við eigum alveg eins hjól...hehe. Takk fyrir hjólið elsku Örn minn :*
Við erum svo búin að vera að hjóla útum allt í gær og í dag :) Fórum nú einnig í ræktina í gær...loksins!



20 janúar 2008

ÍSLAND


Loksins loksins nenni ég að skrifa um ferð mína og Arnar til Íslands núna um lok árs 2007 til byrjunar ársins 2008.

Svona svo ég segi stuttlega frá þá vorum við saman á jólunum með fjölskyldu Arnar, afa hans og ömmu. Það var alveg rosalega notalegt og við fengum mjög góðan jólamat og mjög góðar gjafir :) Takk fyrir okkur!

Síðan fóru Ingólfur, Ásdís og Þórir í skíðaferð þann 26 des og við Örn fórum austur á Akra þann 28 desember. Við ætluðum síðan að fara á jólaball þann 30 des en þar sem að það kom eftirminnilega vont veður, sem hafði byrjað daginn áður, þá var því aflýst og við vorum að auki veðurteppt. Við höfðum það því bara gott í sveitasælunni yfir öll áramótin þótt það hefði mátt vera betra veður. Við tókum Fróða með okkur og það var því mikið fjör.


Við fórum svo í bæinn aftur þann 2 janúar og slöppuðum af þangað til Örn flaug aftur til Danmerkur þann 7 jan. Ég keyrði hann á flugvöllinn eldsnemma og þar sem að ég var búin að lengja jólafríið mitt um tvær vikur þá fór ég ekki með honum :)

Ég var nokkurn veginn búin að segja öllum frá því svona í enda áætlaða tíma nema pabba. Síðan ákvað ég að birtast fyrir austan þarna helgina eftir að Örn fór og pabbi var alveg hissa á að ég væri komin aftur þar sem hann var nú búinn að kveðja mig :)




Þessar auka tvær vikur sem ég tók mér hafa verið alveg þess virði og ég hef notið hvers dags. Ég hafði smá auka tíma til að hitta vini og ættingja, vinna mér inn smá pening og ég fékk snjó í kaupbæti! Það er bara búið að vera frábært veður líka og ég er búin að nýta tækifærið óspart þessa helgina og tók alveg helling af myndum sem eru og koma inná netið á næstu dögum. Ég og Svana skelltum okkur á Akra um helgina og það var alveg frábært hvað var búið að snjóa mikið þar. Við ætluðum nú á hestbak líka en þar sem hitinn rokkaði til og frá og fór niður í -18° gráður á laugardeginum þá var of kalt fyrir það. En við höfðum samt gaman af og tókum fjölda skemmtilegra mynda sem eru komnar inná myndasíðuna mína.




Svo er komið að lokum Íslandsferðar minnar næstkomandi þriðjudag og það verður ágætt að koma heim aftur þótt það sé alltaf jafn gott að vera á Íslandi :) Ef ég hef ekki náð að hitta einhvern þá þykir mér það leiðinlegt en bæti vonandi upp fyrir það í sumar.
Að lokum langar mig að óska Kristjáni Ara, Lindu Sif og Gauta til hamingju með afmælin :)
Kærar kveðjur, Eva Kristín :)