Árið byrjaði svo ekki alveg jafn ánægjulega og ég vonaðist til. Ég var nýkomin heim og um kvöldið frétti ég að amma mín hefði dottið og verið lögð inná spítala. Hún ætti líklegast bara nokkra daga eftir. Ég frétti það bara einum degi of seint :( Það góða var að heyra að hún hefði alla fjölskylduna hjá sér og vonandi leið henni bara sem best síðustu dagana. Hún lést síðan föstudaginn 23 janúar. Ég pantaði mér flug, kom til landsins á miðvikudaginn síðasta eftir aðeins viku í danmörku og fer aftur núna á föstudaginn. Er búin að setja inn myndir alveg frá jólum og yfir þessa seinni íslandsferð. Jarðarförin fór fram á föstudaginn síðasta og var athöfnin alveg sú fallegasta. Veðrið var glæsilegt og alveg eins og amma hefði viljað hafa það.

Elsku amma. Þegar ég hugsa um þig þá fyllist ég af gleði. Þú varst sú allra yndislegasta kona sem til er og mín uppáhalds fyrirmynd. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð þig í vondu skapi og hvað þá hækka röddina gagnart öðrum. Þú komst fram við alla af skærustu góðmennsku og komst öllum í gott skap. Hver man ekki eftir því að koma í heimsókn á Bugðulækinn til þín og afa og fá skúffukökurnar, kleinurnar, kökurnar þínar og alltaf bauðstu uppá kaffi, sama hversu lítill maður var. Ég hlakkaði alltaf jafn mikið til þess að koma í heimsókn til að hjálpa þér með krossgáturnar og læra að spila á spil, og þá sérstaklega Marías þar sem þú leyfðir manni alltaf að vinna án þess að segjast vera að því. Ég man líka eftir því að vera ofaní krukkunni í glugganum til að fá mér paló brjóstsykurinn góða.
Það er hárrétt sem presturinn sagði, að þú varst betri í að gefa frekar en að þiggja. Það er mikið sem ég gæti sagt um þig og það var erfitt að þurfa að kveðja þig elsku amma. Ég er heppin að eiga allar þessar æðislegu minningar um þig og það voru forréttindi að fá að þekkja þig. Þú munt alltaf vera í hjarta mínu!
Hvíl í friði elsku amma :*